Frá vettvangi við Vesturhóla í Reykjavík.
28 Nóvember 2023 11:41

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. nóvember, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 19. nóvember kl. 16.05 var bifreið ekið frá hringtorgi á Dalvegi í Kópavogi, á móts við Vínbúðina, og á rafmagnshlaupahjól, sem á var á leið til norðurs. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 20. nóvember. Kl. 11.19 var bifreið bakkað úr bifreiðastæði á Garðatorgi í Garðabæ og á vegfaranda, sem gekk aftan við bifreiðina. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.43 var bifreið ekið vestur Flatahraun í Hafnarfirði og síðan beygt á gatnamótunum suður Reykjavíkurveg og á vegfaranda, sem var á leið austur yfir götuna á gangbraut. Vegfarandinn, sem sagði grænt ljós hafa logað fyrir gönguleið hans, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 22. nóvember. Kl. 11.06 missti ökumaður á leið austur Suðurlandsveg, ofan við Sandskeið, stjórn á bifreið sinni, sem valt nokkrar veltur yfir á miðeyju á milli akstursátta. Snjór og hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.06 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Vesturhóla og Höfðabakka í Reykjavík, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum ók annar ökumannanna götuna til norðurs og hugðist síðan beygja vestur Höfðabakka þegar árekstur varð með þeim. Einn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 23. nóvember kl. 11.27 var bifreið ekið um Suðurfell í Reykjavík, áleiðis inn á Breiðholtsbraut, og aftan á kyrrstæða bifreið á gatnamótunum. Einn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.