Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
21 Desember 2023 15:32

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10.  – 16 desember, en alls var tilkynnt um 54 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 11. desember kl. 20.36 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni þegar hann ók vestur Vesturlandsveg á Kjalarnesi, á móts við Vík, en við það valt hún nokkrar veltur. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 12. desember. Kl. 0.16 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni þegar hann ók um Hvaleyrarvatnsveg í Hafnarfirði, við Hvaleyrarvatn, sem við það hafnaði utan vegar og  valt. Einn var fluttur á slysadeild. Kl. 1.13 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á gatnamótum Hvaleyrarvatnsvegar og Kaldárselsvegar í Hafnarfirði, sem við það hafnaði utan vegar og valt. Tveir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 9 var bifreið ekið austur Laugaveg í Reykjavík, að gatnamótum við Nóatún, og beygt þar áleiðis Nóatún til suðurs. Í sömu mund var hjólreiðamaður á leið yfir gatnamótin á grænu gangbrautarljósi, austur Laugaveg, og hafnaði bifreiðin á honum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 13. desember kl. 17.41 var bifreið norður Skógarlind í Kópavogi, við Krónuna, og hjólreiðamann á gangbraut. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 14. desember. Kl. 14.31 varð tveggja bíla árekstur á Stórhöfða í Reykjavík. Þeim var ekið úr gagnstæðri átt, en önnur kom út á Stórhöfða frá afgreiðslu Póstsins. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 19.43 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg, að Kópavogsgjá, og aftan á aðra bifreið, en ökumaður hennar hafði dregið úr hraðanum vegna umferðaróhapps á veginum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn ætlaði þangað á eigin vegum. Snjóþekja og mikil hálka var á vettvangi. Og kl. 22.55 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni þegar hann ók norður Reykjanesbraut í Garðabæ,við afrein að Kauptúni, sem við það fór á ljósastaur og hafnaði síðan utan vegar. Þrír voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 16. desember kl. 12.28 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Hafnarfirði, að gatnamótum Álftanesvegar, og aftan á aðra bifreið. Tveir voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.