28 Desember 2023 10:07
Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23 desember, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 17. desember. Kl. 0.47 var bifreið ekið suður Lækjargötu í Reykjavík og á tvo gangandi vegfarendur á móts við Bankastræti. Ökumaðurinn fullyrti að grænt ljós hefði logað fyrir akstursstefnu hans. Annar vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 19 var bifreið ekið norður Háaleitisbraut í Reykjavík og inn á gatnamót við Smáagerði, en þar missti ökumaðurinn stjórn á henni. Við það fór bifreiðin upp á umferðareyju, þaðan á ljósastaur en við þetta valt hún á toppinn. Í aðdragandanum sagði ökumaðurinn að mikil móða hefði skyndilega komið á framrúðuna og byrgt honum sýn. Hann og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.54 var bifreið ekið austur Hringbraut í Reykjavík, en við gatnamótin að Bústaðavegi og Snorrabraut missti ökumaðurinn stjórn á henni. Við það fór bifreiðin utan í ljósastaur og hafnaði síðan á steyptum vegg brúarvirkis sem þarna er. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 18. desember. Kl. 9.44 varð tveggja bíla árekstur á Rjúpnavegi, við Arnarnesveg í Kópavogi, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Annar ökumannanna var grunaður um ölvunarakstur, en sá var talinn hafi ekið yfir á öfugan vegarhelming í aðdraganda slyssins. Snjór var enn fremur á rúðum bifreiðar hans og var það sömuleiðis talið hafa byrgt honum sýn. Ökumaður og farþegi úr hinni bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Kl. 12.21 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg í Garðabæ, nálægt Arnarnesbrú, en þar missti ökumaðurinn stjórn á henni. Við það hafnaði bifreiðin utan vegar og á ljósastaur. Snjókrapi og hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.41 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sæbrautar, Dalbrautar og Sundagarða í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Dalbraut, inn á gatnamótin og áleiðis að Sundagörðum, en hinni bifreiðinni var ekið suður Sundagarða og hugðist ökumaður hennar síðan beygja austur Sæbraut þegar árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 19. desember. Kl. 0.08 varð tveggja bíla árekstur á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, á gatnamótum við Hamraberg. Báðum var ekið til vesturs og hugðist annar ökumannanna beygja inn í Hamraberg þegar bifreið hans rann á hina, sem var hægra megin á akbrautinni, sem við það kastaðist á ljósastaur. Tveir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.38 varð tveggja bíla árekstur á Fífuhvammsvegi í Kópavogi, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum ætlaði sá ökumannanna sem ók til austurs að beygja inn á aðrein á Hafnarfjarðarveg þegar árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.