Frá vettvangi á Kringlumýrarbraut.
10 Janúar 2024 12:09

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 31. desember  – 6. janúar, en alls var tilkynnt um 24 umferðaróhöpp í umdæminu.

Miðvikudaginn 3. janúar kl. 20.03 var hópbifreið ekið á gangandi vegfaranda á bifreiðastæði austan við BSÍ í Reykjavík. Hálka var á vettvangi og lýsing á bifreiðastæðinu ekki góð, að sögn ökumannsins. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 5. janúar kl. 4.38 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, en við Bústaðavegsbrú missti ökumaðurinn stjórn á henni. Við það fór bifreiðin á vegrið, sem aðskilur akstursstefnur, og síðan yfir á öfugan vegarhelming og valt þar nokkrar veltur. Í aðdraganda slyssins var bifreiðinni veitt eftirför af lögreglu, en ökumaðurinn var þá grunaður um umferðarlagabrot annars staðar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 6. janúar. Kl. 13.53 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Reykjavík, að gatnamótum Bústaðavegar, og út fyrir veginn á móts við Atlantsolíu. Ökumaðurinn, sem er grunaður um fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.36 var bifreið ekið norðaustur Reykjanesbraut í Garðabæ, en á móts við Kauptún missti ökumaðurinn stjórn á henni. Við það hafnaði bifreiðin á ljósastaur. Farþegi var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.