Frá vettvangi á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu.
19 Janúar 2024 12:51

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. janúar, en alls var tilkynnt um 26 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 10. janúar. Kl. 9.02 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Hringbraut í Reykjavík, við N1, sem við það hafnaði á ljósastaur og umferðarmerki. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, sagðist hafa sofnað í aðdraganda slyssins. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.08 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Hafnarfirði og á rafhlaupahjól, sem þveraði veginn á gatnamótum við Hamraberg. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.33 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu í Reykjavík. Annarri bifreiðinni var ekið austur Hringbraut, en hinni vestur Hringbraut og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka Njarðargötu til suðurs þegar árekstur varð með þeim. Síðarnefndi ökumaðurinn viðurkenndi að hafa ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 11. janúar kl. 16.02 var bifreið ekið austur Sólvallagötu í Reykjavík og á steyptan garðvegg sem þar er. Í aðdraganda slyssins ætlaði ökumaðurinn að beygja inn í bifreiðastæði, en steig þá á inngjöf í stað hemla með fyrrgreindum afleiðingum. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 12. janúar kl. 23.20 var bifreið ekið vestur Miklubraut í Reykjavík, á rein sem liggur að Skeiðarvogi þegar annarri bifreið, einnig á vesturleið, var ekið í veg fyrir hana svo árekstur varð með þeim. Við það kastaðist fyrrnefnda bifreiðin til og hafnaði á ljósastaur. Ökumaður hennar var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 13. janúar kl. 6.19 var bifreið ekið vestur Hringbraut í Reykjavík, en við Bræðraborgarstíg missti ökumaðurinn stjórn á henni, sem við það hafnaði á sex kyrrstæðum bifreiðum við veginn. Ökumaðurinn, sem er grunaður um fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.