Frá vettvangi á bifreiðastæðum við Krónuna.
7 Febrúar 2024 08:26

Í síðustu viku lést einn og fimm slösuðust í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. janúar – 3. febrúar, en alls var tilkynnt um 44 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 28. janúar. Kl. 15.26 varð tveggja bíla árekstur á bifreiðastæði Krónunnar í Skógarlind í Kópavogi. Hálka og snjóþæfingur var á vettvangi. Farþegi úr öðrum bílnum var fluttur á slysadeild. Kl. 16.06 varð árekstur strætisvagns og fólksbifreiðar á Laugavegi í Reykjavík, við Mjölnisholt, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum rann strætisvagninn yfir á öfugan vegarhelming með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.29 varð bifreið ekið vestur Miklubraut í Reykjavík, á móts við Skeifuna, og aftan á strætisvagn, sem var á sérrein við biðstöð. Í aðdragandanum sagðist ökumaður fólksbifreiðarinnar að ekið hefði verið á hans bifreið, sem við kastaðist inn á sérreinina og á strætisvagninn. Ökumaður þriðju bifreiðarinnar, sem áður var lýst, nam ekki staðar  við þetta og ók rakleitt áfram og frá vettvangi slyssins, en þar var hálka og snjóþæfingur. Ökumaður fólksbifreiðarinnar, sem hafnaði á strætisvagninum, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 30. Janúar. Kl. 1.18 var bifreið ekið inn í hringtorg á Krýsuvíkurvegi í Hafnarfirði, undir/við Reykjanesbraut, en á sama tíma var annarri bifreið ekið um torgið svo árekstur varð með þeim. Hálka og snjóþæfingur var á vettvangi. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.58 varð árekstur fólksbifreiðar og vöruflutningabifreiðar á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, á móts við álverið í Straumsvík, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Annar ökumannanna lést. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.