Frá vettvangi við Ártúnsbrekku.
15 Febrúar 2024 18:04

Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. febrúar, en alls var tilkynnt um 44 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 5. febrúar. Kl. 6.38 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Kópavogi, við Smáralind, og aftan á snjóruðningstæki, sem við það valt á hliðina. Tjónvaldurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, ók rakleitt af vettvangi, en fannst skömmu síðar við Sörlatorg í Hafnarfirði þar sem hann hafði ekið yfir hringtorg og út af veginum. Ökumaður snjóruðningstækisins var fluttur á slysadeild. Kl. 9.37 varð tveggja bíla árekstur í Ólafsgeisla í Reykjavík, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið yfir á öfugan vegarhelming, en hálka var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 14.55 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg í Ártúnsbrekku í Reykjavík og aftan á aðra bifreið, sem var ekið í veg fyrir hana frá aðrein að Sæbraut. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 6. febrúar kl. 12.16 var bifreið ekið norður Strandgötu í Hafnarfirði, hjá Mýrargötu, þegar annarri bifreið var ekið frá bifreiðastæði og inn á Strandgötu svo árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 7. febrúar. Kl. 12.01 var bifreið ekið Gullinbrú í Reykjavík og aftan á aðra bifreið á sömu leið. Í aðdragandanum sagðist ökumaður aftari bifreiðarinnar hafa blindast af sólinni, sem var lágt á lofti. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 14.14 varð árekstur bifreiðar og bifhjóls á mótum Langatanga og Skeiðholts í Mosfelllsbæ. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Skeiðholt og bifhjólinu norður Langatanga svo árekstur varð með þeim. Stöðvunarskylda er fyrir umferð um Langatanga gagnvart umferð um Skeiðholt. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.03 var bifreið ekið suður Gullinbrú í Reykjavík, að gatnamótum við Stórhöfða, og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð vegna eldsneytisskorts. Í kjölfarið kom þriðja bifreiðin og ók aftan á þá sem ók á kyrrstæðu bifreiðina. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 8. febrúar. Kl. 17.48 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg í Reykjavík, út úr Korputorgi, en þar missti ökumaðurinn stjórn á henni, sem við það hafnaði utan vegar. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa misst stjórnina þegar hann beygði sig eftir flösku sem datt í gólfið og fór undir bremsupedalann. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.56 varð tveggja bíla árekstur á Breiðholtsbraut í Reykjavík, við Stöng, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum var báðum bifreiðunum ekið inn á gatnamót, sem þarna eru, en annar ökumannanna hugðist síðan beygja þar til vinstri svo árekstur varð með þeim. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 10. febrúar. Kl. 0.11 var bifreið ekið suður Barkarvog í Reykjavík og á hliðarslá, sem lokar bílastæði við götuna. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa verið að reyna að forðast árekstur við bifreið, sem var snögghemlað fyrir framan hann, með fyrrgreindum afleiðingum. Hálka og snjóþæfingur var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.31 varð tveggja bíla árekstur á Sæbraut í Reykjavík, við gatnamót Laugarnesvegar, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum var báðum bifreiðunum ekið inn á gatnamótin, en annar ökumannanna hugðist síðan beygja þar til suðurs inn á Laugarnesveg svo árekstur varð með þeim. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.