Frá vettvangi á Reykjanesbraut við Bústaðaveg.
19 Febrúar 2024 16:10

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. febrúar, en alls var tilkynnt um 28 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 12. febrúar kl. 17.01 missti ökumaður á Suðurlandsvegi, við Bláfjallaafleggjara, stjórn á bifreið sinni sem við það hafnaði utan vegar og fór 1-2 veltur. Bifreiðin var á sumardekkjum, en hálka og snjór var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 14. febrúar kl. 22.53 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á Suðurlandsbraut í Reykjavík, við Grensásveg. Í aðdragandanum var vegfarandinn sagður, af vitnum, hafa hlaupið yfir gatnamótin gegnt rauðu gangbrautarljósi. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 16. febrúar kl. 22.52 var strætisvagni ekið á gangandi vegfaranda á biðstöð við Höfðabakka í Reykjavík. Í aðdragandanum virðist sem vegfarandinn hafi runnið til í hálku og snjó í þann mund sem strætisvagninn var að stöðva við biðstöðina. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 17. febrúar kl. 18.08 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar í Reykjavík, en þeim var báðum ekið í sömu átt. Í aðdragandanum hugðist annar ökumannanna skipta um akrein og beygði þá í veg fyrir hina bifreiðina með fyrrgreindum afleiðingum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.