Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ.
6 Mars 2024 10:39

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. febrúar – 2. mars, en alls var tilkynnt um 32 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 26. febrúar kl. 15.47 var bifreið ekið vestur Árskóga í Reykjavík og hugðist ökumaður hennar síðan beygja til hægri og aka Álfabakka til norðurs þegar hann missti stjórnina. Við það fór bifreiðin upp á gangstétt og hafnaði á steyptum vegg umferðarbrúar sem þarna er. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa verið skipta um tónlist á tölvuskjá bifreiðarinnar. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 28. febrúar kl. 16.38 var bifreið ekið vestur Breiðholtsbraut í Reykjavík, inn á gatnamót við Vatnsendahvarf, og á bifhjól, sem var ekið inn á gatnamótin frá Vatnsendahvarfi. Ágreiningur er um stöðu umferðarljósa þegar slysið varð, en báðir ökumennirnir sögðust hafa ekið gegn grænu ljósi. Ökumaður bifhjólsins, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 29. febrúar. Kl. 5.57 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg í Garðabæ, við Arnarneslæk, þegar ökumaðurinn missti stjórn á henni. Við það hafnaði bifreiðin á ljósastaur utanvegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.13 var fjórhjóli ekið á göngustíg á Smalaholti í Garðabæ, vestan Austurkórs, þegar ökumaðurinn missti stjórn á því. Við það rann hjólið niður brekku og valt. Hálka og snjór var á vettvangi. Farþegi var fluttur á slysadeild. Ökumaðurinn hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.

Föstudaginn 1. mars kl. 21.25 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg í Reykjavík og til Mosfellsbæjar. Á leiðinni hafði ökumaðurinn, að sögn vitnis, ekið nokkrum sinnum utan í vegrið uns hann ók yfir hringtorg við Langatanga og nam þar loks staðar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um fíkniefna- og lyfjaakstur, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.