19 Mars 2024 11:49
Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. mars, en alls var tilkynnt um 24 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 11. mars kl. 17.52 féll hjólreiðmaður af rafmagnshlaupahjóli þegar hann var á leið yfir gangbraut í Borgartúni í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 13. mars kl. 8.41 varð árekstur bifreiðar, sem var ekið norður Gautavík í Reykjavík og inn á gatnamót við Hamravík, og rafmagnshlaupahjóls. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 15. mars. Kl. 7.03 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Strandvegar og Gufunesvegar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suður Strandveg, en hinni norður Strandveg og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri inn á Gufunesveg þegar árekstur varð með þeim. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.57 var bifreið bakkað á gangandi vegfaranda á bifreiðastæði við Lóuhóla í Reykjavík. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.