Frá vettvangi á Kjalarnesi.
25 Mars 2024 16:21

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. mars, en alls var tilkynnt um 16 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 17. mars kl. 15 var bifreið ekið austur Álftanesveg í Garðabæ og á tvær aðrar bifreiðar, við hringtorg við Garðahraunsveg. Einn ökumannanna og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 18. mars kl. 20.27 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Reykjanesbrautar og Fjarðarhrauns í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Reykjanesbraut, en hinni suður Fjarðarhraun og hugðist síðarnefndi ökumaðurinn taka vinstri beygju á gatnamótunum og aka síðan austur Reykjanesbraut þegar árekstur varð með þeim. Að sögn vitnis var bifreiðinni ekið gegn rauðu ljósi frá Fjarðarhrauni, en ökumaður hennar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 19. mars kl. 12.47 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg á Kjalarnesi, en norðan Grundarhverfis missti ökumaðurinn stjórn á henni. Við það valt bifreiðin eina veltu og hafnaði síðan aftur á hjólunum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 22. mars kl. 16.01 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar í Reykjavík. Annarri bifreiðinni var ekið norður Kringlumýrarbraut og hinni suður Kringlumýrarbraut, en síðarnefndi ökumaðurinn hugðist beygja til vinstri á gatnamótunum og aka síðan Suðurlandsbraut til austurs þegar árekstur varð með þeim. Sami ökumaður ók gegn rauðu ljósi að sögn vitnis. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi á Kjalarnesi.