29 Apríl 2024 16:21

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. apríl, en alls var tilkynnt um 35 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 21. apríl. Kl. 12.05 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á Bæjarbraut í Garðabæ þegar hann hjólaði á annan hjólreiðamann. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.10 missti ökumaður fjórhjóls stjórn á því á Strípisvegi í Heiðmörk í Reykjavík. Við það afréð ökumaðurinn að stökkva af hjólinu, en lenti þá á grjóti. Þarna er lausamöl, en hjólið hafnaði í skógi utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 23. apríl. Kl. 15.24 var bifreið ekið á hús við Dalveg í Kópavogi. Talið er að ökumaðurinn hafi fengið aðsvif í aðdraganda slyssins og því stigið á bensíngjöfina í stað hemla. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.44 þurfti ökumaður strætisvagns að snögghemla á Miklubraut í Reykjavík þegar bifreið var beygt í veg fyrir vagninn. Við það féllu þrír farþegar í strætisvagninum í gólfið og voru þeir allir fluttir á slysadeild. Kl. 16.56 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg sunnan Einimelar í Reykjavík þegar hann missti stjórn á hjólinu á malarsvæði. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.12 var bifreið ekið um Hrafnshöfða í Mosfellsbæ, inn á Arnarhöfða, þegar reiðhjóli var hjólað inn á götuna og í hlið bifreiðarinnar, en trjágróður byrgir vegfarendum sýn á þessum stað. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.21 var bifreið bakkað út frá bifreiðastæði á Melabraut í Hafnarfirði, við Holtanesti, og á hjólreiðamann á rafmagnshlaupahjóli. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 24. apríl kl. 15.24 var bifhjóli ekið norður þverun á Bústaðavegi í Reykjavík og á bifreið, sem var ekið vestur götuna en ökumaður hennar hugðist síðan aka beygjurein, sem þarna er, og til norðurs inn á Kringlumýrarbraut. Á þessum stað eru umferðarljós, en ágreiningur er um ljósastöðu þegar slysið varð. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 25. apríl kl. 9.59 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli þegar hann hjólaði á stein á Krýsuvíkurvegi í Hafnarfirði, við jarðnámurnar. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.