30 Maí 2024 15:20
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. maí, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 19. maí. Kl. 14.32 varð tveggja bíla árekstur á Suðurlandsvegi, við Hólmsá, en þeim var ekið úr gangstæðri átt. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið yfir á öfugan vegarhelming með fyrrgreindum afleiðingum, en sá ökumaður er grunaður um lyfjaakstur. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.54 varð árekstur bifreiðar og rafmagnshlaupahjóls á gatnamótum Lynghvamms og Hringbrautar í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Hringbraut og hugðist ökumaðurinn hennar síðan beygja til vinstri og aka Lynghvamm til suðurs. Á sama tíma var rafmagnshlaupahjóli hjólað austur Hringbraut svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 21. maí. Kl. 19.43 féll ökumaður af bifhjóli á Bústaðavegi í Reykjavík, við Kringlumýrarbraut. Í aðdragandanum missti bifhjólið veggrip, en blautt var á vettvangi. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.49 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Klapparstíg í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 24. maí. Kl. 8.14 varð tvegga bíla árekstur á gatnamótum Svarthöfða og Sævarhöfða í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Svarthöfða og inn á gatnamótin, en á sama tíma var hinni bifreiðinni ekið austur Sævarhöfða svo árekstur varð með þeim. Biðskylda er gagnvart umferð um Sævarhöfða. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.32 var reiðhjóli hjólað utan í kyrrstæða bifreið á Garðavegi í Hafnarfirði, við Víðistaðakirkju, en við féll hjólreiðamaðurinn af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 25. maí. Kl. 17.58 féllu ökumaður og farþegi af vespu á göngustíg á Fléttuvöllum í Hafnarfirði, við Furufelli. Vitni sagði aðra vespu hafa ekið á hina vespuna í aðdraganda slyssins. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.52 var reiðhjóli hjólað á ljósastaur við Sogaveg í Reykjavík. Við það féll hjólreiðamaðurinn af hjólinu og rotaðist. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.