Frá vettvangi á gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.
17 Mars 2015 14:16

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. mars.

Mánudaginn 9. mars kl. 17.12 varð tólf ára gamall drengur fyrir bifreið í Langarima. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 10. mars. Kl. 14.45 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut sunnan við Arnarneshæð. Mjög slæmt veður var á þessum tíma, lélegt skyggni, skafrenningur, þæfingur og hálka. Talsverð umferð var einnig á þessum tíma. Ökumanni annarrar bifreiðarinnar var ekið á slysadeild með lögreglubifreið til skoðunar. Kl. 15 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut sunnan Bústaðavegar. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var færður á slysadeild til skoðunar. Kl. 15.05 varð árekstur tveggja bifreiða á Reykjanesbraut á móts við Kauptún. Ökumaður og tveir farþegar í annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Kl. 17.40 var bifreið ekið aftan á strætisvagn á Háaleitisbraut við Listabraut. Farþegi bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.43 var bifreið ekið á umferðarljósastaur við gatnamót Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar eftir að hafa lent í vatnsrás á malbikinu. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild með sjúkrabifreið.

Fimmtudaginn 12. mars kl. 8.49 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Strandgötu við Suðurgötu. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild í lögreglubifreið.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 13. mars. Kl. 9.30 varð árekstur á gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar. Annar ökumaðurinn leitaði til slysadeildar eftir óhappið. Og kl. 10.56 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Fjarðargötu gegnt Landsbankanum. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að sýna þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið varlega þegar það á við. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg.
Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.

Frá vettvangi á gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.