Frá vettvangi á Þingvallavegi.
31 Mars 2015 14:33

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. mars.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 22. mars.  Kl. 9.33 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut og bifreið, sem var ekið norður Grensásveg. Ökumanni annarrar bifreiðarinnar og ökumanni og farþegum í hinni var ekið á slysadeild af sjúkraflutningamönnum. Við áreksturinn skemmdist ökuljósaviti við gatnamótin. Kl. 16.04 var bifreið ekið austur Hringbraut vestan Njarðargötu, yfir grasbala, uppá gangstétt, inná göngubrú, í gegnum grindverk og út af henni aftur. Bifreiðin endaði á hvolfi um 90 metrum frá brúnni. Engin hemlaför voru sjáanleg á vettvangi, frá þeim stað þar sem bifreiðin fór út af veginum og þangað sem hún endaði. Líklegt er talið að ökumaðurinn hafi fengið aðsvif áður en óhappið varð. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild með sjúkrabifreið. Og kl. 23.06 varð aftanákeyrsla á Höfðabakkavegi við Elliðaárbrú. Tveir farþegar í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 23. mars. Kl. 10.16 varð aftanákeyrsla á Snorrabraut við Bergþórugötu. Ökumaður aftari bifreiðarinnar, sem reyndist vera undir áhrifum fíkniefna, hafði verið að tala í farsíma við aksturinn. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 14.31 var vörubifreið með mold og grjót á pallinum ekið austur Suðurlandsveg. Þegar bifreiðinni var ekið um hringtorg við Breiðholtsbraut valt hún á hliðina. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.14 valt út af Þingvallavegi jeppi með tengivagn. Á yfirborði vegarins var svell og mikil hálka. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 28. mars kl. 0.43 var akstur bifreiðar stöðvaður í Depluhólum eftir eftirför lögreglu um austurborgina. Í millitíðinni hafði bifreiðinni verið ekið utan í umferðarmerki og nokkrar bifreiðar. Ökumaðurinn reyndist vera ölvaður. Tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að sýna þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið varlega þegar það á við. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg. Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á Þingvallavegi.

Frá vettvangi á Þingvallavegi.