Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
15 Apríl 2015 16:54

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. apríl.

Þriðjudaginn 7. apríl kl. 8.10 varð árekstur með bifreið sem var ekið út af bifreiðastæði við Tunguháls 10, niður ramp sem liggur niður með húsinu, og bifreið, sem ekið var austur Tunguháls. Ökumaður og farþegi fyrrnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á á slysadeild með sjúkrabifreið.

Miðvikudaginn 8. apríl kl kl. 8.17 lenti gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Reykjavíkurvegi á móts við Tölvulistann. Hann var fluttur á slysadeild. Þarma er merkt gangbraut yfir götuna og hafði ökumaður stöðvað á vinstri akrein til að hleypa gangandi yfir götuna þegar bifreið var ekið hægra megin framúr með fyrrgreindum afleiðingum.

Fimmtudaginn 9. apríl kl. 23.01 var bifreið ekið út úr hringtorgi á Vesturlandsvegi gegnt Álafossi og á ljósastaur, sem þar var. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 11. apríl kl. 17.42 fékk aldraður maður afsvif í akstri við Mýrina í Garðabæ og stöðvaðist á mannslausri bifreið á stæðinu. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að sýna þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið varlega þegar það á við. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg. Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.