Frá vettvangi á Þingvallavegi.
20 Apríl 2015 15:26

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. apríl.

Sunnudaginn 12. apríl kl. 17.11 lenti bifreið út af Þingvallavegi við Gljúfrastein. Mikil hálka var á veginum þegar óhappið varð. Ökumaður var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 15. apríl kl. 18.46 var ökumaður bifhjóls að beygja af Kringlumýrarbrautinni áleiðis inn á aðrein að Suðurhlíð þar sem hann lenti í sandi sem var á milli hjólfara með þeim afleiðingum að framhjólið klossbremsaði og hann missti stjórn á því og féll á hliðina. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 16. apríl. Kl. 13.38 varð aftanákeyrsla við gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 14.06 var bifreið ekið aftur á bak á Laugavegi við Bríetartún og á gangandi vegfaranda, sem var á leið yfir gatnamótin. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.52 féll kona á fimmtugsaldri af hlaupahjóli á gangstíg við Digranesheiði. Hún meiddist á höfði og var flutt á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 17. apríl. Kl. 21 lenti bifhjólamaður á bifreið á Langatanga. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.14 varð maður á reiðhjóli fyrir bifreið á Þinghólsbraut. Reiðhjólamaðurinn hafði hjólað Þinghólsbraut til vesturs,  séð bifreiðina kyrrstæða á veginum og því hjólað framhjá henni hægra megin. Þegar hann var næstum því kominn fram fyrir bifreiðina hafði ökumaðurinn ekið af stað og lent á reiðhjóli hans aftanverðu. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 18. apríl. Kl. 12.53 valt bifreið á Krýsuvíkurvegi rétt sunnan Bláfjallaafleggjara.  Farþegi í bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.01 valt fjórhjól í Fróðengi. Í götunni er leyfður hámarkshraði 30 km/klst. Ökumaðurinn kastaðist af hjólinu og lenti á nálægum ljósastaur áður en hann féll til jarðar. Hann var fluttur á slysadeild. 

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er algerlega óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg. Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á Þingvallavegi.

Frá vettvangi á Þingvallavegi.