Frá vettvangi á mótum Bústaðavegar og Sogavegar.
28 Apríl 2015 11:19

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. apríl.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt  sunnudaginn 19. apríl. Kl. 14.30 lenti 8 ára drengur á reiðhjóli á hlið bifreiðar í Kjarrhólma. Drengurinn hafði hjólað áleiðis yfir gangbraut þegar bifreiðinni var ekið austur götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.34 var bifreið ekið austur Bústaðaveg og beygt áleiðis norður Sogaveg. Í beygjunni lenti hún á ljósastaur við gatnamótin. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.42 var bifreið ekið á ljósastaur við Þingvallaveg skammt frá Laxnesi. Ökumanni og farþega var ekið á slysadeild til skoðunar.

Mánudaginn 20. apríl kl. 13.52 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Dragháls, og bifreið, sem ekið var inn á gatnamótin frá Hálsabraut. Við áreksturinn kastaðist fyrrnefnda bifreiðin á kyrrstæða bifreið við gatnamótin. Ökumaður var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 22. apríl. Kl. 12:54 varð árekstur á Smiðjuvegi milli bifreiða, sem ekið var austur götuna og annarrar, sem ekið var vestur hana og beygt til vinstri áleiðis inn á Rauða götu. Ökumaður fyrrnefndu  bifreiðarinnar, kona, var ófrísk og því flutt til skoðunar á slysadeild. Og kl. 17.25 varð fjögurra bíla aftanákeyrsla á Miklubraut miðja vegu á milli Grensásvegar og Háaleitisbrautar. Tveir ökumenn voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 25. apríl kl. 05.47 varð reiðhjólamaður fyrir bifreið, sem var ekið aftur á bak á Hringbraut við Vatnsmýrarveg. Hann var fluttur á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er algerlega óviðeigandi við akstur  – enda stórhættuleg. Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á mótum Bústaðavegar og Sogavegar.

Frá vettvangi á mótum Bústaðavegar og Sogavegar.