Frá vettvangi á Hálsabraut
12 Maí 2015 15:47

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. maí.

Mánudaginn 4. maí kl. 9.05 varð reiðhjólamaður fyrir bifreið í Ármúla gegnt húsi nr. 34. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 5. maí. Kl. 15.56 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Miklubraut á beygjuakrein við Grensásveg. Hann ætlaði að leita sér læknisaðstoðar vegna meiðsla á handlegg. Kl. 18.46 varð árekstur með bifreið og bifhjóli á hringtorgi við gatnamót Lækjargötu og Reykjanesbrautar. Bifhjólinu var ekið á innri akrein í hringtorginu og ætlaði ökumaður að aka til suðurs út úr hringtorginu inn á Reykjanesbrautina. Bifreiðinni var ekið á ytri akrein í hringtorginu og ætlaði ökumaður að aka til austurs og út úr hringtorginu inn Hlíðarberg. Ökumaður bifhjólsins ætlaði að leita sér sjálfur læknisaðstoðar vegna meiðsla. Og kl. 20.56 var bifhjól lagt á hliðina á Langarima við Laufrima til að koma í veg fyrir að lenda á kyrrstæðri bifreið framundan. Ökumaðurinn fann til eymsla í báðum úlnliðum, hægri ökkla og bringu.  Hann ætlaði að leita sjáfur til slysadeildar til frekari rannsóknar.

Miðvikudaginn 6. maí kl. 1.40 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Vífilsgötu, og bifreið, sem ekið var norður Gunnarsbraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar meiddist og ók ökumaður þeirrar fyrrnefndu honum á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 7. maí. Bifreið rann yfir fót á ökumanni/eiganda sínum þá er hann var að yfirgefa hana við Höfðabakka.  Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.49 lagðist bifhjól á hliðina á Hálsabraut þegar bifreið var ekið í veg fyrir það af Krókhálsi. Með því tókst ökumanninum, sem var fluttur á slysadeild, að forðast árekstur. 

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 9. maí. Kl. 19.40 varð barn fyrir bifreið við verslun Krónunnar í Vallakór.  Barnið klemmdist á milli bifreiðarinnar og veggs. Það var flutt á slysadeild með sjúkrabifreið. Ökumaðurinn var í æfingarakstri þegar óhappið varð. Hann og leiðbeinandinn voru fluttir á slysadeild til að gefa þeim kost á áfallahjálp. Og kl. 23.37 varð aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut gegnt Select. Ökumaður aftari bifreiðarinnar hljóp af vettvangi en náðist. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Farþegi í bifreiðinni og ökumaður fremri bifreiðarinnar ætluðu að leita læknisaðstoðar vegna meiðsla.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er algerlega óviðeigandi við akstur  – enda stórhættuleg. Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á Hálsabraut

Frá vettvangi á Hálsabraut