12 Júní 2015 17:24
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 31. maí – 6. júní.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 1. júní. Kl. 14.13 lenti fótur stúlku, sem var farþegi á reiðhjóli á Hrauntungu, í teinunum. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 15.03 valt bifreið út af Hafravatnsvegi við Geitháls. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 3. júní kl. 21.14 datt kona af reiðhjóli við götukantstein þegar hún reyndi að fara af Suðurgötu við Lækjargötu og upp á gangstétt. Hún var flutt á slysadeild.
Fimmtudaginn 4. júní kl. 21.20 datt maður af reiðhjóli á Hverfisgötu við Vitastíg. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 5. júní. Kl. 12.03 lenti bifreið uppi á vegriði á Reykjanesbraut undir Arnarnesvegi. Ökumaðurinn hafði fengið aðsvif með framangreindum afleiðingum. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.13 hljóp vegfarandi á hlið bifreiðar sem ekið var Miklubraut til vesturs og í beygju á gatnamótum Lönguhlíðar. Hlaupandi vegfarandinn ætlaði að leita sér sjálfur aðstoðar á slysadeild vegna meiðsla sem hann hlaut.
Laugardaginn 6. júní kl. 22 féll reiðhjólamaður þegar hann var að hjóla á gangbraut yfir Suðurgötu við Starhaga. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara varlega.