Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.
16 Júní 2015 10:55

Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í fjórtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. júní.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 7. júní.  Kl. 9.46 féll hjólreiðamaður á Háholti við Hlégarð. Hann var fluttur á slysadeild.  Kl. 15.26 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar. Eftir áreksturinn lenti önnur bifreiðin á umferðarljósavita við gatnamótin. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.22 var bifreið ekið á ljósastaur við Þingvallaveg í Mosfellsdal. Við áreksturinn valt bifreiðin út fyrir veg og hafnaði á hvolfi. Ökumaðurinn var grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 8. júní. Kl. 14.28 var bifreið ekið utan í vegrið á Hafnarfjarðarvegi undir Arnarnesbrúnni. Við áreksturinn kastaðist bifreiðin til og snerist í hálfhring áður en hún hafnaði utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.39 var reiðhjólamaður fyrir bifreið á Laugavegi við Snorrabraut. Hann hafði hjólað vestur Laugaveg þegar bifreiðinni var ekið suður Snorrabraut. Umferðarljós eru við gatnamótin. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 9. júní. Kl. 8.09 var bifreið ekið vestur Ásbraut frá Haukatorgi þegar ökumaðurinn missti stjórn á henni með þeim afleiðingum að hún fór í gegnum girðingu, sem aðskilur akbrautir Ásbrautar, og framan á bifreið, sem ekið var úr gagnstæðri átt. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.03 datt kona á reiðhjóli í Eskihlíð á móts við hús nr. 15. Hún var flutt á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 10. júní.  Kl. 7.51 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut. Á móts við Rauðhellu teygði ökumaðurinn sig eftir starfsmannaskírteini með þeim afleiðingum að bifreið hans sveigði yfir á rangan vegarhelming þar sem hún lenti á framhorni fólksflutningsbifreiðar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.20 varð árekstur með bifreið sem ekið var austur Fífuhvammsveg og bifreið sem var ekið suður Dalveg. Báðir ökumennirnir reyndust ökuréttindalausir. Þeir, auk farþega í hvorri bifreiðinni, voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 11. júní kl. 16.23 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut á móts við Kauptún. Þrengingar voru þarna vegna malbikunarframkvæmda. Ökumaður fremri bifreiðarinnar ætlaði að leita sér aðstoðar slysadeildar vegna meiðsla á hné.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 12. júní.  Kl. 8.12 féll hjólreiðamaður á gatnamótum Sogavegar og Bústaðavegar.  Hann var meiddur á höfði, hjálmlaus, og var fluttur á slysadeild. Og kl. 18 féll hjólreiðamaður í Ármúla við Ármúlaskóla eftir að hafa hjólað á kantstein. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 13. júní. Kl. 11.30 var bifreið ekið utan í mann á bifhjóli á Vesturlandsvegi í hringtorgi við Skarhólabraut. Við óhappið féll bifhjólmaðurinn af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.31 var fjórhjóli ekið á stein á vegslóða við Úlfarsfell með þeim afleiðingum að það valt. Ökumaðurinn var erlendur ferðamaður. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara varlega.

Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.

Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.