5 Júní 2018 12:35
Rannsókn stendur yfir á umferðarslysi á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, skammt frá Enni, á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þar lentu saman fólksbifreið og sendibifreið. Ökumaður fólksbifreiðarinnar, karlmaður á fertugsaldri, erlendur ríkisborgari, búsettur hér á landi, lést í slysinu. Níu einstaklingar, sem allir voru í sendibifreiðinni, voru fluttir á slysadeild þar af fjórir taldir alvarlega slasaðir.
Í tengslum við rannsóknina óskar lögregla eftir vitnum að árekstrinum. Þeir sem kunna að hafa orðið vitni að honum eða aðdraganda hans og ekki hafa verið í sambandi við lögreglu, eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000 eða senda upplýsingar til lögreglu með tölvupósti á netfangið stella.mjoll@lrh.is