12 Júní 2018 12:30
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir upplýsingum um svarta Suzuki Swift bifreið vegna rannsóknar hennar á umferðarslysi á Reykjanesbraut í Hafnarfirði rétt fyrir klukkan 8 í morgun. Hér er átt við myndskeið af ferð bílsins á Reykjanesbraut í aðdraganda slyssins ef einhver kann að hafa slíkt undir höndum. Þá eru þeir tjónþolar, sem ekki ræddu við lögregluna á vettvangi í morgun, beðnir um að setja sig í samband við lögreglustöðina á Flatahrauni 11 í Hafnarfirði. Upplýsingum má koma á framfæri í tölvupósti á netfangið rosa@lrh.is eða í síma 444 1000. Einnig er tekið við ábendingum í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu embættisins.
Lögreglu bárust nokkrar tilkynningar um háskalegt aksturslag ökumanns bílsins skömmu fyrir slysið, en ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tíu bílar skemmdust í slysinu og var ökumaður eins þeirra fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Fjóra bílanna varð að fjarlægja af vettvangi með dráttarbíl. Vegna slyssins var Reykjanesbraut lokuð til norðurs frá Ásbraut að Lækjargötu í u.þ.b. tvær og hálfa klukkustund.