6 Júní 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók svörtum Honda-jepplingi á fjórtán ára pilt á reiðhjóli á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar um klukkan 16 þriðjudaginn 29. maí sl. Pilturinn var að fara yfir gangbraut sem er á aðrein frá Kringlumýrarbraut og inn á Miklubraut (austanmegin á gatnamótunum) þegar hann varð fyrir bílnum. Ökumaðurinn, sem var líklega kona á miðjum aldri eða jafnvel eldri, stöðvaði för sína í örskamma stund, skrúfaði niður bílrúðuna og spurði piltinn hvort hann væri í lagi. Hann sagði svo vera og þá hélt konan áfram leiðar sinnar. Við skoðun á slysadeild kom hins vegar í ljós að pilturinn hafði slasast og þá hafði hjólið hans ennfremur skemmst. Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi. Lögreglan biður umræddan ökumann um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444-1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is