17 Febrúar 2012 12:00
Níu umferðarslys urðu á stuttum vegarkafla í Ártúnsbrekku á Vesturlandsvegi, eða á milli Veiðimannavegar og Breiðhöfða, á árunum 2008-2011. Á sama tímabili urðu sex umferðarslys á vegarkaflanum á milli Bústaðavegar og rampa á Stekkjarbakka. Í samstarfi vegagerðar, sveitarfélaga og lögreglu er leitast við að greina orsök óhappa á þessum stöðum og leita lausna.
Fyrr í vikunni var fjallað um umferðarslys á gatnamótum og kom þar kannski fátt á óvart. Á árunum 2008-2011 urðu nítján umferðarslys á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar og átján á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Þessir staðir skera sig eilítið úr en tvö önnur gatnamót á Miklubraut koma líka við sögu þegar haldið er áfram að skoða tölur um umferðarslys. Á sama tímabili urðu fjórtán umferðarslys á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og sömuleiðis á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Í 5-6 sæti á listanum yfir hættulegustu gatnamótin í Reykjavík eru gatnamót Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar og gatnamót Stekkjarbakka, Skógarsels og Breiðholtsbrautar en á þeim báðum urðu tólf umferðarslys á árunum 2008-2011. Loks má nefna gatnamót Hringbrautar (nýja) og Njarðargötu og gatnamót Borgartúns og Kringlumýrarbrautar en á þeim báðum urðu tíu umferðarslys á þessu sama tímabili.
Heimild: Umferðarstofa
Gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.