27 September 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á Miklubraut í Reykjavík, austan Skeiðarvogs, laust fyrir klukkan hálfátta í morgun, þriðjudaginn 27. september. Þar rákust saman ljósgrár Citroen Berlingo, sem er lítill sendibíll, og grár BMW en bílunum var ekið austur Miklubraut. Bæði ökutækin höfnuðu utan vegar en sendibíllinn stöðvaðist á umferðareyju. BMW-inn lenti hins vegar á ljósastaur og er mikið skemmdur. Meiðsli ökumannanna voru talin minniháttar. Þeir sem urðu vitni að slysinu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.
Frá Miklubraut.