20 Febrúar 2018 10:34

Miklar umferðartafir voru á höfuðborgarsvæðinu í morgun eftir að tugir kjötskrokka féllu af flutningabíl á Sæbrautinni á áttunda tímanum í morgun og grípa þurfti til lokunar þar. Má segja að allt hafi farið í hnút, en sumir vegfarendur voru vel á aðra klukkustund á leið til vinnu af þessum sökum. Ástandið var einna verst hjá þeim sem komu úr austurborginni og Mosfellsbæ og óku Vesturlandsveg og Miklubraut í vestur. Staðan á Sæbraut og Reykjanesbraut var með sama hætti, en óhappið undirstrikar að mörgu leyti hversu gatnakerfið er viðkvæmt og ekki þarf mikið til svo umferðin svo gott sem stöðvast.