27 Júní 2018 15:36

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir vegfarendur á að búast má við umferðartöfum vegna upphafs hjólreiðakeppninnar WOW cyclothon, sem hefst í dag kl. 18, en ræst verður í tveimur flokkum og er seinni ræsingin kl. 19. Lagt verður af stað frá Egilshöll í Grafarvogi og hjólað Víkurveg, Korpúlfsstaðaveg og Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ að gatnamótum við Þingvallaveg og síðan áfram austur Þingvallaveg að Kjósarskarðsvegi og þaðan að Laxá í Kjós. Keppendur hjóla síðan Hvalfjörðinn og inn á þjóðveg 1 þar sem keppnin heldur áfram.

Lögreglan fylgir keppendum frá Egilshöll og inn á Þingvallaveg og biður alla vegfarendur um að sýna hjólreiðaköppunum þolinmæði og skilning. Það á ekki bara við um höfuðborgarsvæðið heldur landið allt enda munu keppendur hjóla hringinn í kringum landið á næstu tveimur dögum.