27 Mars 2007 12:00

Nú þegar klukkan er hálftíu er ennþá mjög þung umferð á höfuðborgarsvæðinu og fólk á því erfitt með að komast leiðar sinnar. Síga fór verulega á ógæfuhliðina um hálfáttaleytið í morgun en fljúgandi hálka gerði ökumönnum erfitt fyrir. Ökutæki fóru hægt yfir og því myndaðist fljótlega umferðarteppa á nánast öllu höfuðborgarsvæðinu. Margir voru seinir til vinnu í dag og sumir eru ennþá á leiðinni.

Ástandið var og er enn víða slæmt og ekki síst í úthverfum, t.d. Breiðholti og Grafarvogi. Segja má að sumir hafi hvorki komist afturábak né áfram, slík var umferðin. Margir tóku þann kostinn að snúa aftur til síns heima og bíða af sér umferðina. Nú þegar er búið að tilkynna fjölda umferðaróhappa til lögreglu en ekki er vitað um nein alvarleg slys á fólki.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur ökumenn til að fara varlega og biður þá að sýna þolinmæði.