3 Nóvember 2006 12:00

Tvær konur voru teknar fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík í gær og nótt. Önnur er á fimmtugsaldri en hún var stöðvuð í miðbænum seinnipart dagsins. Skömmu áður hafði hún ekið á kyrrstæða bifreið. Hin konan er á þrítugsaldri en akstur hennar var stöðvaður í austurbænum eftir miðnætti. Þrír ökumenn sem lögreglan stöðvaði í gær höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.

Tuttugu og tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar. Í tveimur þeirra varð slys á fólki, minniháttar þó. Fáeinir notuðu ekki bílbelti eða töluðu í síma án þess að nota handfrjálsan búnað. Fimm voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og tveir fyrir að vanrækja merkjagjöf. Þess má geta að lögregluliðin á Suðvesturlandi fylgjast nú grannt með notkun stefnuljósa hjá ökumönnum.  Töluvert vantar upp á að stefnumerkjagjöfin sé í lagi, ekki síst í hringtorgum.

Tuttugu og fjórir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur. Fjórir þeirra voru stöðvaðir í íbúðargötum en þó var ekki um ofsaakstur að ræða. Ökumennirnir 24 eiga allir sekt yfir höfði sér en sá sem mest þarf að borga er trúlega tvítugi pilturinn sem var stöðvaður á Bústaðaveginum í gærmorgun. Ekki er ljóst hvort hann var að flýta sér í vinnuna eða skólann en aksturslagið var ekki til eftirbreytni. Bæði ók hann alltof hratt og eins gerðist hann sekur um svigakstur. Þá vanrækti hann líka að gefa stefnuljós en sektum er beitt fyrir öll þessi brot. Ekki er samt allt upptalið enn því pilturinn hafði trassað að fara með bílinn í skoðun.