31 Júlí 2006 12:00

Fjörutíu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík um helgina. Í þeim hópi var bifhjólamaður sem ók Sæbrautina á 164 km hraða en lögreglan fordæmir slíkan akstur.

Tólf ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur og sex fyrir að aka gegn rauðu ljósi. Þá stöðvaði lögreglan för ökumanns sem ók undir áhrifum lyfja. Einnig voru höfð afskipti af ökumanni á léttu bifhjóli (vespu) en sá var ekki með öryggishjálm.

Kæruleysi af þessu tagi er áhyggjuefni en lögreglan stöðvaði líka nýverið annan bifhjólamann sem virtist ekki vera með þessar reglur um öryggisbúnað á hreinu. Sá var sjálfur með öryggishjálm en ungur farþegi á hjólinu hans var það hins vegar ekki.