21 Júlí 2006 12:00

Umferðin í Reykjavík var með þokkalegasta móti í gær. Að vísu urðu allmargir árekstrar en í fæstum tilvikum urðu slys á fólki. Sex voru teknir fyrir hraðakstur og reyndist einn þeirra vera með útrunnið ökuskírteini. Þá voru tveir teknir fyrir ölvunarakstur. Lögreglan hafði einnig afskipti af ökumönnum sem töluðu í síma án þess að vera með handfrjálsan búnað. Einnig voru fáeinir ökumenn stöðvaðir fyrir að vera ekki með beltin spennt.

Þá vill lögreglan höfða til samvisku þeirra ökumanna sem hverfa af vettvangi eftir ákeyrslur. Slíkt gerist of oft og er það miður. Þeir sem það gera ættu að líta í eigin barm og setja sig í spor tjónþola.