25 Ágúst 2006 12:00

Umferðin í Reykjavík er aftur tekin að þyngjast eins og margir vegfarendur hafa tekið eftir. Skólarnir eru teknir til starfa á nýjan leik og þá eru sumarleyfi flestra að baki. Þetta hefur auðvitað áhrif á umferðina og því er skynsamlegt að gefa sér góðan tíma til að komast á milli staða. Þetta á ekki síst við um þá sem fara um götur borgarinnar á morgnana.

Umferðin í gær gekk samt að mestu áfallalaust en eitthvað var um minniháttar árekstra. Það er samt eitt að valda tjóni og annað að axla ekki ábyrgð. Þannig veit lögreglan um tvö tilfelli í gær þar sem keyrt var á kyrrstæðar bifreiðar. Í báðum tilvikum fóru gerendur af vettvangi án þess að skilja eftir nokkur skilaboð um hvar  hægt væri að ná í þá.

Í minnst tveimur umferðaróhöppum í gær þurfti að flytja fólk á slysadeild. Í því fyrra var um fullorðna konu að ræða. Á hana var keyrt við gangbraut en konan fékk skurð á höfðuðið auk annarra meiðsla. Þá lenti reiðhjólamaður á strætisvagni en ekki var talið að meiðsli hans væru alvarleg.