16 Febrúar 2021 11:57

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vísar algjörlega á bug ummælum í frétt Morgunblaðsins og mbl.is í dag þar sem hún er sökuð um að hafa í hótunum við rekstraraðila veitingastaða í miðborginni, en í fyrirsögn fréttarinnar er lögregla sögð mistúlka reglur og beita hótunum. Við eftirlit í miðborginni vinnur lögregla samkvæmt túlkun heilbrigðisráðuneytisins á reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og þar, sem annars staðar, hefur lögreglan beitt meðalhófi. Lögreglumenn hafa einnig lagt sig fram um að leiðbeina veitingamönnum um það sem betur má fara, séu ástæður til þess. Ábendingunum hefur verið vel tekið og samskiptin verið með ágætum.

Vegna fréttarinnar er enn fremur ástæða til að ítreka að opnunartími veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar skv. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar sé til klukkan 22 en þá eiga staðirnir að vera tómir, enda sé þessum stöðum ekki heimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21. Þá skal „take away“ þjónusta fara fram í gegnum lúgu eða hurð eftir kl. 21 en slík þjónusta er heimil til kl. 23 samkvæmt reglugerðinni.