23 Október 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði för tveggja ökumanna í umdæminu í gær sem voru undir áhrifum fíkniefna. Um miðjan dag var karl á fertugsaldri tekinn fyrir þessar sakir í Kópavogi en sá hafði lent í umferðaróhappi. Þar var um aftanákeyrslu að ræða en fyrrnefndur ökumaður ók á kyrrstæða bifreið við bensíndælu og mátti litlu muna að þar yrði stórslys. Tveir menn áttu þar fótum sínum fjör að launa en annar þeirra var fluttur á slysadeild til skoðunar en ekki er vitað frekar um meiðsli hans. Ökumaðurinn og farþegi hans, karl á svipuðum aldri, voru báðir handteknir en í bílnum fundust fíkniefni. Um kvöldmatarleytið tók lögreglan pilt um tvítugt í miðborginni en sá var líka undir áhrifum fíkniefna við stýrið. Honum var veitt stutt eftirför áður en hann lét sér segjast og stöðvaði bifreiðina en pilturinn hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.