8 Júlí 2005 12:00

Reykjavíkurborg og Lögreglustjórinn í Reykjavík hafa undirritað húsaleigusamning sem kveður á um að lögreglan mun leigja húsnæði í Álfabakka 12 undir hverfislögreglustöð.  Í Álfabakka 12 er Þjónustumiðstöð Breiðholts til húsa og með flutningi lögreglunnar þangað mun samstarfs þessara aðila aukast til muna. Lögreglan mun flytja hverfislögreglustöð sína úr Völvufelli í Mjóddina í haust. Með því að færa lögreglustöðina í Mjódd þá verður lögreglan nær hringiðu mannslífsins í Breiðholti.  Sérstakur aðalvarðstjóri mun stjórna lögreglustöðinni og löggæslu í Breiðholti.  Lögreglumenn verða ráðnir sem sinna munu löggæslu í Breiðholti, frá miðjum degi og fram á nótt.  Þá mun hverfislögreglumaður sem einkum sinnir málefnum barna og unglinga starfa á stöðinni. Með þessu móti munu ákveðnir lögreglumenn sinna löggæslu í Breiðholti og þannig ná betri tengslum við hverfið og borgarana.  Jafnframt geta rannsóknarlögreglumenn komið á stöðina og sinnt þar margvíslegum verkefnum, viðtölum eða yfirheyrslum.

Þjónustumiðstöð Breiðholts og Lögreglustjórinn í Reykjavík binda miklar vonir við að sameiginlegt húsnæði verði til þess að samstarf aukist til muna og virk samvinna náist við íbúa, stofnanir og félagasamtök í Breiðholti til hagsmuna fyrir alla aðila. Húsaleigusamninginn undirrituðu fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri Þjónustu- og rekstrarsviðs Reykjavíkurborgar og fyrir hönd Lögreglunnar, Sólmundur Már Jónsson, framkvæmdastjóri, Þjónustu- og rekstrarsviðs Lögreglunnar í Reykjavík.