20 Júlí 2007 12:00

Þrír ungir piltar á barnaskólaaldri unnu töluverðar skemmdir á byggingasvæði á höfuðborgarsvæðinu en óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna þessa í gærmorgun. Þegar komið var á byggingasvæðið blasti við ófögur sjón en búið var að brjóta nokkur ljós á stóru vinnutæki og við kaffiskúr. Þá var veggjakrot líka sjáanlegt og grjóti hafði verið kastað í rúður svo sprungur mynduðust. Þá hafði málningu verið skvett á nærliggjandi íbúðarhús og við annað hús mátti sjá málningarskvettur á skjólvegg og útihúsgögnum.

Við rannsókn málsins beindust böndin fljótt að áðurnefndum piltum. Í fyrstu vísuðu þeir hver á annan en sannleikurinn kom þó fljótt í ljós. Málið verður sent til barnaverndarnefndar.