13 Apríl 2010 12:00

Lögreglan var kölluð til þegar unglingapartí í Reykjavík fór úr böndunum á laugardagskvöld. Vel gekk að koma gestunum út en þó voru nokkrir sem vildu alls ekki yfirgefa samkvæmið og reyndu hinir sömu að fela sig í húsinu. Að lokum tókst að koma öllum krökkunum af vettvangi en þó varð ekki hjá því komist að handtaka einn. Sá lét mjög ófriðlega og neitaði með öllu að fara úr partíinu en viðkomandi, 16 ára piltur, var fluttur á lögreglustöð. Þangað var hann svo sóttur af foreldrum.