19 Ágúst 2007 12:00
Rúmlega tuttugu unglingar voru færðir í sérstakt athvarf á Menningarnótt og er það svipaður fjöldi og í fyrra. Hringt var í foreldra þeirra og þeim gert að sækja krakkana en ástand sumra var mjög slæmt sökum ölvunar. Það var hópur svæðislögreglumanna sem hélt úti öflugu eftirliti í gærkvöld og nótt en tilgangur þess var að vinna gegn ólöglegri útivist og áfengisdrykkju. Afskipti voru höfð af yfir 100 unglingum en þeir sem höfðu ekki aldur til að vera úti við var vísað heim eða færðir í athvarf. Þá var miklu magni af áfengi hellt niður. Almennt séð var ekki mikið um brot á lögum um útivistartíma en þeim mun meira um brot á áfengislögum.
Þrátt fyrir það sem hér er nefnt voru lögreglumenn almennt nokkuð sáttir með ástandið en ölvun var vissulega töluverð.