28 Mars 2007 12:00
Átján ára stúlka var tekin fyrir þjófnað á snyrtivörum í Smáralind um miðjan dag í gær. Nokkru síðar voru tvær stúlkur á fermingaraldri staðnar að verki á sama stað en þær tóku sælgæti ófrjálsri hendi. Tólf ára piltur var svo tekinn fyrir sömu iðju í matvöruverslun í Grafarvogi síðdegis. Þá var fatnaði stolið af snúrum í austurborginni en þjófurinn er ófundinn.
Laust eftir hádegi voru tveir veggjakrotarar gripnir glóðvolgir í miðborginni en það voru vegfarendur sem stöðvuðu þá við þessa vafasömu iðju og höfðu samband við lögreglu. Veggjakrotararnir, sem eru piltar á fjórtánda aldursári, hafa áður orðið uppvísir að slíku hátterni. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust fleiri tilkynningar um veggjakrot í gær en hér er um afar hvimleitt vandamál að ræða.