14 Nóvember 2006 12:00

Síðastliðið föstudagskvöld var lögreglan í Reykjavík með sérstakt eftirlit með útivistartíma barna og unglinga. Farið var í öll hverfi borgarinnar og er skemmst frá því að segja að ástandið var almennt til mikillar fyrirmyndar. Fáeinum krökkum var vísað til síns heima en þess má jafnframt geta að afar lítið bar á ölvun unglinga umrætt kvöld.

Þótt veðrið hafi ekki verið með alveg besta móti þetta kvöld skýrir það eitt og sér ekki þetta góða ástand. Staðreyndin er nefnilega sú að langflestir unglingar eru til mikillar fyrirmyndar. Það vill bara stundum gleymast að halda því á lofti.