30 Október 2006 12:00
Því miður koma unglingar oft við sögu lögreglunnar í Reykjavík og svo var einnig um þessa helgi. Nokkuð er um eftirlitslaus partí og þau fara oft úr böndunum. Helsta orsökin er sú að mun fleiri mæta iðulega í gleðskapinn en gestgjafinn gerir ráð fyrir. Boðflennurnar láta stundum ófriðlega og í einu tilfelli helgarinnar tóku þær hluti ófrjálsri hendi og höfðu á brott með sér.
Annað samkomuhald sem fór úr böndunum var haldið í ónefndum sal í borginni. Þar var allstór hópur ungmenna samankomin og áfengisneysla töluverð. Margir veislugesta voru aðeins 16 og 17 ára enda var partíið stöðvað tafarlaust. Lögreglan hafði einnig afskipti af unglingum í miðbænum en á annan tug 17 ára ungmenna var vísað út af vínveitingahúsum.
Það er alþekkt að unglingar eiga erfitt með að bíða eftir að ná tilskyldum aldri til að drekka áfengi eða að komast inn á skemmtistaði. Sama má segja um bíla og bifhjól en strákar eru stundum mjög óþreyjufullir þegar kemur að slíkum hlutum. Enn eitt dæmi þess kom upp um helgina þegar sextán ára piltur tók bíl móður sinnar í óleyfi. Ökuferð hans endaði með ósköpum því pilturinn ók á ljósastaur. Stráksi slapp ómeiddur en bíllinn skemmdist og var óökufær eftir uppátækið.