19 Nóvember 2009 12:00
Að gefnu tilefni hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgst sérstaklega með gangi skólaballa framhaldsskólanna að undanförnu. Framkvæmd þeirra hefur verið með mismunandi sniði, allt eftir metnaði hvers skóla hverju sinni. Verslunarskólinn var fyrr í mánuðinum með skólaball á Nasa við Austurvöll. Ballið var til fyrirmyndar; húsið opnað á tilskyldum tíma og lokað svo sem leyfi sagði til um. MH var með skólaball á Nasa tveimur dögum síðar. Við eftirlit kom í ljós að stúlku hafði verið komið fyrir í herbergi fyrir ofurölvi. Lögreglan ók henni heim þar sem foreldri tók á móti henni. Fátt annað bar til tíðinda. Skemmtunin var vel sótt og fór að mestu prúðmannlega fram og virtust gestir að mestu hafa vera sóttir af forráðamönnum að skemmtun lokinni en aðrir sameinuðst í einkabíla eða leigubíla. Gæsla var næg og kennari var á staðnum.Tækniskólinn var með dansleik á Sódómu í gærkvöld. Lögreglumenn fóru á staðinn og ræddu við yfirdyravörð. Öflug gæsla var á staðnum og aðstaða fyrir sjúkragæslu á efri hæð. Starfsfólk var mjög samvinnuþýtt og ánægt með að lögregla hefði eftirlit með samkomunni.Dyraverðir sögðust hafa þurft að vísa 6 ungmennum frá vegna ölvunar en þau höfðu blásið í áfengismæli hjá gæslumönnum er gaf til kynna að fólkið væri undir áhrifum áfengis. Einn unglingur var sóttur af forráðamönnum. Engin afskipti þurfti að koma til af hálfu lögreglu. Einnig var farið inn á skemmtistaðinn eftir að skemmtun átti að hafa verið lokið. Engir gestir voru þá inni á staðnum og verið var að þrífa og ganga frá. Allt starfsfólk virtist ánægt með framkvæmdina sem og eftirlit lögreglu. Fyrir utan staðinn voru nokkur ungmenni sem voru að bíða eftir fari heim, en voru prúðmannleg í framkomu.