17 Mars 2004 12:00

Samkvæmt stefnumörkun og markmiðssetningu lögreglustjórans í Hafnarfirði fyrir árið 2004, skal með markvissum hætti stefnt að fækkun á umferðaróhöppum og slysum í umdæminu, með því að auka eftirlit á þeim vegarköflum, þar sem óhöpp eru hvað flest.  Þá segir einnig að sérstakar aðgerðir lögreglu í umferðarmálum verði kynntar í fjölmiðlum áður en þær hefjast.

Nú hafa árhersluverkefni tímabilsins 18. mars til 18. apríl verið ákveðin.  Sérstök áhersla verður lögð á eftirlit með hraðakstri og akstri á móti rauðu ljósi og mun lögreglan einkum beina eftirlitinu að Hafnarfjarðarvegi, Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Reykjanesbraut frá Fjarðarhrauni og út úr bænum.

Einnig verður fylgst með vanrækslu á aðalskoðun, bílbeltanotkun ökumanns og farþega, svo og öryggisbúnaði barna.  Réttindi ökumanna verða einnig könnuð með tilliti til aksturs réttindalausra.