16 Október 2002 12:00

Undanfarnar vikur hefur lögreglan í Reykjavík lagt sérstaka áherslu á að vinna úr upplýsingum um neyslu ungmenna á hverskonar ólöglegum vímuefnum. Lögreglan er þakklát þeim fjölmörgu borgurum sem tilbúnir eru að vinna gegn frekari útbreiðslu fíkniefna með því að tilkynna slík viðskipti til lögreglu.

Við upphaf þessa skólaárs var ákveðið að lögreglumenn úr forvarna- og fíkniefnadeildum embættisins myndu sameiginlega vinna úr fyrirliggjandi upplýsingum til að hamla gegn aðgengi ungmenna að slíkum efnum. Verkefnið fólst í því að börn ásamt forráðamönnum voru boðuð á lögreglustöð til viðtals þar sem forráðamönnum voru kynntar upplýsingar lögreglu. Ásamt lögreglu vann Barnavernd Reykjavíkur að verkefninum og voru fulltrúar þeirra viðstödd mörg viðtölin.

Í ljós kom að fjölmörg ungmenni voru í fyrsta sinn að viðurkenna fyrir forráðamönnum neyslu sína á ólöglegum efnum, bæði áfengi og fíkniefnum. Þau efni sem virðast mest aðgengileg fyrir ungmennin eru: landi, annað áfengi, kannabisefni en auk þess virðast e-töflur og amfetamín einnig nokkuð aðgengileg.

Í viðtölunum var forráðamönnum gefnar leiðbeiningar um hvernig leita mætti sér aðstoðar og vitað er til þess að tvö ungmenni eru þegar komin í meðferð. Samtals var rætt við 88 ungmenni á aldrinum frá 13 til 17 ára og ríflega 100 forráðamenn voru viðstaddir viðtölin. Áberandi var hversu vel forráðamenn tóku verkefninu og þeirri aðstoð sem lögreglan var að veita með þessu vinnulagi. Það kom fram að mörg ungmennin hafa ekki mikla neyslu að baki og því er tækifæri að koma þeim til aðstoðar. Aðeins eitt foreldri neitaði að koma í viðtal á lögreglustöð með þeim orðum að „á sínum bæ væru ekki vandamál og barnið hans hefði ábyggilega aldrei verið í neinni neyslu“ og vildi því ekki að sér yrðu kynntar þær upplýsingar sem fyrirliggjandi voru.

Niðurstöður þessarar skoðunar lögreglu eru þær að því miður sé aðgengi ungmenna á þessum aldri að ólöglegum fíkniefnum er of mikið. Vinna þarf bót á því sem krefst samvinnu miklu fleiri einstaklinga og stofnanna en lögreglu. Foreldrar og aðrir forráðamenn eru því beðnir að vera á varðbergi gangvart sölumönnum ólöglegra vínuefna og sem fyrr hvattir til að kom ábendingum á framfæri við lögreglu í síma 569-9090

Fhl.

Karl Steinar Valsson

Aðstoðaryfirlögregluþjónn

Fylgigögn, samantekt vegna áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna.