19 Janúar 2023 15:34

Aðgerðastjórn almannavarna á Suðurlandi kom saman til upplýsingafundar í dag.   Farið var yfir veðurspá frá fundi með veðurstofu í dag.   Gert er ráð fyrir því að aftur verði fundað í fyrramálið og staðan endurmetin.

Veðurspá fyrir nóttina í nótt gerir ráð fyrir úrkomubakka austan Mýrdalssands í kvöld með allmikilli snjókomu sem getur orðið til þess að færð þar spillist.  Þá eru líkur á að ferðaveður verði vont á fjallvegum, t.d. Hellisheiði, seint í nótt og fram undir morgun meðan úrkoma verður í formi snjókomu eða slyddu.  Einnig er rétt að minna á að Skeiða- og Hrunamannavegur er lokaður við Stóru Laxá vegna framkvæmda við nýsmíði brúar og hættu af mögulegum vatnavöxtum í ánni.

Sem fyrr eru íbúar í umdæminu hvattir til að hreinsa frá niðurföllum og hreinsa grýlukerti og snjóhengur af þökum.  Þá er ljóst að svellbunkar verða víða og flughált þannig að mannbroddar verða nauðsynlegur staðalbúnaður til göngu.

Vel er fylgst með stöðu mála hvað varðar ár og læki í umdæminu, einkum vestan til.  Ljóst er til dæmis að ekki verður ráðlegt að reyna við gönguferðir í Reykjadali enda mikil úrkoma á Helliheiði með tilheyrandi vatnavöxtum í Varmá ofan á glæra svell á gönguleiðinni.

Tímalengd hlýindakaflans og úrkomumagnið mun að líkindum ekki nægja eitt og sér til að valda stórflóðum í Hvítá og Ölfusá.  Hinsvegar er engin leið að sjá fyrir um stíflumyndanir vegna íss og því full ástæða fyrir þá sem eiga útigang á þekktum flóðasvæðum að færa hann í hærra land.   Þá ber alltaf að fara varlega nærri straumvatni þar sem hætta er á að ár ryðji sig.

Skógarfoss hefur stundum verið vatnsmeiri en var í morgun þegar lögregla fór þar hjá.