3 Ágúst 2004 12:00
Lögreglan hefur rannsakað hvarf Sri Rhamawati, 33 ára gamallar konu sem síðast var vitað um að morgni sunnudagsins 4. júlí sl.
Lögreglu var tilkynnt um hvarf hennar að kvöldi mánudagsins 5.júlí og rannsókn hófst strax að morgni þriðjudagsins 6. júlí. Fljótlega vöknuðu grunsemdir um refsivert athæfi og að ekki væru eðlilegar skýringar á hvarfi hennar. Eftir ítarlega vettvangsrannsókn strax um morguninn, í íbúð þar sem síðast var vitað um hana, var barnsfaðir hennar og fyrrum sambýlismaður handtekinn. Daginn eftir var hann leiddur fyrir dómara og gerð krafa um gæsluvarðhald sem dómari féllst á. Það var síðan framlengt að kröfu lögreglu til 11. ágúst n.k.
Þann 27. júlí benti hinn handtekni á staðinn, sem hann sagðist hafa komið líkinu af Sri Rhamawati fyrir á. Sagðist hann hafa kastað því fram af klettum á Presthúsatöngum á sunnanverðu Kjalarnesi.. Þann 28. júlí játaði hann fyrir lögreglu að hafa orðið Sri Rhamawati að bana með barefli í íbúð sinni að morgni sunnudagsins 4. júlí.
Frekari rannsóknir á vettvangi á Kjalarnesi gerðu frásögn hins handtekna ótrúverðuga. Þann 3. ágúst féllst hann á að vísa lögreglunni á lík Sri Rhamawati þar sem hann hafði komið því fyrir í hraunsprungu utan við Hafnarfjörð og urðað yfir. Við leit þar fannst líkið á tilgreindum stað.
Lögreglan í Reykjavík þakkar öllum, sem veitt hafa aðstoð við rannsóknina, þolinmæðina og þeirra góða liðsinni.
Rannsókn málsins heldur áfram.
Reykjavík 3. ágúst 2004.
Ómar Smári Ármannsson
aðstoðaryfirlögregluþjónn