27 Ágúst 2012 12:00

Skemmdarverk á biðskýlum strætós á höfuðborgarsvæðinu eru ekki ný af nálinni og lögreglan er stundum kölluð út vegna þessa. Einu útkalli af því taginu var sinnt á dögunum en þá var hringt í lögreglan vegna manns sem var sagður vera að rústa biðskýli við Miklubraut. Lögreglan var fljót á staðinn og hitti þar fyrir tæplega þrítugan karl en sá játaði að hafa unnið skemmdir á tímatöflu, sem er á staur við biðskýlið. Spurður um athæfið sagði maðurinn að hann hefði misst af strætó og því brugðist svona við. Skemmdarvargurinn bætti við að strætisvagninn, sem hann ætlaði að ferðast með, hefði verið á undan áætlun og það væru óviðunandi vinnubrögð. Skýrsla var gerð um málið en maðurinn, sem notaði hjólabretti til að berja á tímatöflunni, lofaði að borga tjónið sem hann olli.