3 Apríl 2020 18:23

Þótt dregið hafi úr umferðinni á höfuðborgarsvæðinu er ekki þar með sagt að allir ökumenn virði nú leyfðan hámarkshraða. Fyrr í vikunni var t.d. ökumaður sviptur ökuréttindum til bráðabirgða fyrir að aka Vesturlandsveg í Mosfellsbæ, yfir Leirvogsá, á 98 km hraða, en þar er nú 30 km hámarkshraði vegna framkvæmda. Áberandi skilti eru til að vekja athygli ökumanna á leyfðum hámarkshraða á þessum stað, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd, en það virðist ekki duga til. Tekið skal fram að ökutækin á myndinni voru ekki staðin að hraðakstri. Þá mældist líka í vikunni ökutæki á Suðurlandsvegi, á Sandskeiði, á 181 km hraða í einni af myndavélum lögreglunnar, þar sem leyfður hámarkshraði er 90. Báðir þessir ökumenn eiga ákæru yfir höfði sér.