10 Ágúst 2011 12:00

Nokkur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í gær. Síðdegis varð tveggja bíla árekstur í vesturborginni. Dráttarbíll fjarlægði ökutækin af vettvangi en ökumaður annars þeirra var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Um svipað leyti rákust saman í austurborginni bíll og maður á reiðhjóli en ekki er vitað um meiðsli reiðhjólamannsins. Um kvöldmatarleytið varð árekstur á Seltjarnarnesi og nokkru síðar á mótum Laugavegs og Kringlumýrarbrautar. Í báðum tilvikum var um tveggja bíla árekstur að ræða en sá seinni var talsvert harður og eignatjón eftir því. Síðla kvölds var svo bíl ekið á ljósastaur á Álftanesvegi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild en óhappið er rakið til þess að hann var að kveikja sér í sígarettu og missti þá stjórn á bílnum með fyrrgreindum afleiðingum.